Um okkur

Plastiðjan Bjarg Iðjuludur (PBI)

Saga og stjórnun vinnustaðarins:

Plastiðjan Bjarg var stofnuð af Sjálfsbjörgu félagi fatlaðra árið 1968. Þar var fyrst verndaður vinnustaður fyrir félagsmenn Sjálfsbjargar. Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra tók við rekstri staðarins árið 1993 og honum var breytt í starfsþjálfunarstað fyrir fatlaða.

Iðjulundur var stofnaður árið 1981. Staðurinn var verndaður vinnustaður, fyrst og fremst fyrir fólk með þroskahömlun. Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra sá um reksturinn.

Frá árinu 1996 varð Akureyrarbær rekstraraðili beggja staðanna samkvæmt þjónustusamningi við Félagsmálaráðuneytið um málefni fatlaðra.

Vinnustaðirnir tveir voru sameinaðir í janúar 1999 og flutt í húsnæði á Gleráreyrum. Í mars 2007 var flutt í núverandi húsnæði að Furuvöllum 1.

Vinnustaðurinn heyrir undir Velferðarsvið Akureyrarbæjar og starfar eftir hugmyndafræðinni Þjónandi leiðsögn (e.Gentle Teaching) og valdeflingu (e. Empowerment).

Helstu verkefni:

Helstu verkefni vinnustaðarins er starfsþjálfun, undirbúningur fyrir það að snúa aftur á vinnumarkaðinn og að skapa vinnutækifæri fyrir þá sem eru með skerta starfsgetu af ýmsum ástæðum.

Verkefni í vinnu eru fyrst og fremst ýmis iðnaðarframleiðsla. Má þar nefna framleiðslu á raflagnaefni, kertum, skiltum, búfjármerkjum og textílvörum.

 

Markmið staðarins eru:

  • Að skapa gott vinnuumhverfi og störf við hæfi þeirra sem eru í vinnu á PBI.
  • Að auka vinnuhæfni fatlaðra og langtíma atvinnulausra í starfsþjálfun og starfsendurhæfingu.
  • Að efla þátttöku fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði.

Gildin okkar:

  • Samvinna, að vinna saman að því að mæta ólíkum þörfum þjónustunotanda.
  • Traust, að vera fagleg og áreiðanleg í störfum okkar.
  • Jákvæðni,  Við erum jákvæð fyrir breytingum og finnst gaman í vinnunni.
  • Við erum ein liðsheild.